Stúlknakór Reykjavíkur

Þegar ég byrjaði fimm ára gömul í Domus vox hélt ég að ég væri einfaldlega að byrja í kór þar sem ég mætti einu sinni í viku og fengi að syngja með nokkrum stelpum. Nú, 13 árum seinna, veit ég að það var verið að bjóða mig velkomna inn í samfélag, fjölskyldu. Ég sé líf mitt ekki fyrir mér án þeirra kjarnakvenna sem sjá um skólann. Þeim þykir vænt um alla í skólanum og gera allt til þess að öllum líði eins og þeir eigi heima þar. Við erum fjölskylda.

Jana Björg, 18 ára

Stúlknakór Reykjavíkur 


Stúlknakór Reykjavíkur var stofnaður af Margréti J. Pálmadóttur kórstjóra haustið 1995. Stúlkurnar eru á aldrinum 6-15 ára og koma frá grunnskólum og framhaldsskólum höfuðborgarsvæðisins. Stúlknakórinn er fjölmennur og telur um 120 félaga í ólíkum aldurshópum. Starf kórsins þroskar söngnæmi nemenda með því að flytja fjölbreytta kórtónlist. Margar stúlkur stunda einsöngsnám við söngskólann Domus vox og þannig er söngur orðinn stór þáttur í lífi þeirra. Kórinn hefur haldið fjölda tónleika og oft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið á Myrkum músíkdögum. Einnig hefur hann farið í tónleikaferðir innanlands og utan, m. a. til Ítalíu, Þýskalands og Danmerkur.

Kórfélagar hafa fengið tækifæri til að taka þátt í leikhúsuppfærslum í samstarfi við Borgarleikhúsið:
Bernharða Alba – 2013 , Gullna Hliðið – 2014, Medea – 2018, 9 Líf – 2020

Stúlknakór Reykjavíkur 1,2,3,4 og Syngjandi forskóli er ætlaður söngelskum stúlkum frá 5–15 ára aldri. Starfið er aldurskipt og aðalæfingar allra hópa eru hafðar á mánudögum á tímabilinu kl. 16:15-19:45.


Fjölmargir kennarar vinna með kórnum og utan söngsins er lögð áhersla á góða líkamsbeytingu í dansi og leik. Undirstöðatriði tónfræðinnar eru kennd í kórstarfinu. 

Stúlknakór 1: 5-6 ára kennt á þriðjudögum kl. 16:30 – 17:15

Stúlknakór 2: 7-8 ára : 16:15 – 17:15 

Stúlknakór 3: 9-11 ára : 17:00 – 18:15

Stúlknakór 4: 12-15 ára : 18:00 – 19:45

 

Syngjandi forskóli er 6-8 vikna námskeið fyrir öll börn. Námskeiðið er kennt seinustu vikurnar á vorönn á laugardögum kringum hádegi. 

Ég var í stúlknakórnum þegar ég var yngri og kom síðan aftur í kórinn þegar ég varð eldri. Kórstarf er dýrmæt gjöf sem mun endast manni út lífið, svo einstakt að hitta hóp af öðrum söngelskum stelpum/konum og gleyma sér í tónlistinni. Dregur úr áhyggjum og leiðindum, endalaus gleði!

Hólmfríður Benediktsdóttir, 21 árs

Ég byrjaði í Domus vox þegar ég var aðeins 4 ára gömul og eru því komin heil 15 ár síðan. Sjálf hef ég lært ótrúlega mikið frá því ég byrjaði, bæði hvað varðar framkomu og söngtækni. Ég hef lært að koma fram bæði í kór en einnig sem einsöngvari og er það afar dýrmætt. Í einsöngsnáminu fær maður mörg tækifæri, sem er mjög mikilvægt til að öðlast reynslu í þessum bransa. Nú er ég búin með framhaldsstig frá Domus vox og stunda nám í Jazz-söng við tónlistarskólann FÍH. Einnig hef ég kynnst mörgum af mínum nánustu vinkonum í kórnum sem mér þykir svo vænt um. 

Sigrún Valdís, 19 ára

Í söngskólanum kynnist þú þínum forever vinkonum sem þú getur alltaf treyst

Anna Zhu, 18 ára