Aurora
Ég var í stúlknakórnum þegar ég var yngri og kom síðan aftur í kórinn þegar ég varð eldri. Kórstarf er dýrmæt gjöf sem mun endast manni út lífið, svo einstakt að hitta hóp af öðrum söngelskum stelpum/konum og gleyma sér í tónlistinni. Dregur úr áhyggjum og leiðindum, endalaus gleði!
Aurora
saga kórsins
Aurora var stofnaður árið 1997 en þá fór 20 kvenna hópur á aldrinum 22-40 ára til Rómar í boði listamannsins Auro. Næst fór kórinn (einnig í hans boði) og söng á menningarhátíð í Rímíní. Hópurinn starfaði þegar þörfin kallaði að hverju sinni og hefur alltaf skartað frábærum söngkonum úr starfi Margrétar Pálmadóttur. Árið 2015 tók Sigríður Soffía við kórstjórastöðunni ásamt söngkonunni og kórstjóranum Hildigunni Einarsdóttur og Margréti J. Pálmadóttur, stofnanda kórsins.
Aurora er skipaður ungum söngkonum sem allar eiga það sameiginlegt að hafa lært einsöng í söngskólanum Domus vox og hafa mikla söngreynslu. Kórinn vinnur í samstarfi við söngskólann sem greiðir fyrir kennsluna. Þátttökugjald er í lágmarki. Tækifærin bjóðast allstaðar og alltaf er þörf fyrir góðan sönghóp sem gleður og gefur. Kórinn tekur að sér ýmist veraldleg andleg verkefni og hefur margoft tekið þátt í tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands m.a. á jónatónleikum hljómsveitarinnar, uppsetningu á “Lord of the rings” eftir Howard Shore árið 2012, í þriðju sinfóníu Mahlers árið 2014, Strákurinn og slikkeríið eftir Jóhann G. Jóhannsson árið 2019. Margar stúlkur stunda einsöngsnám við söngskólann Domus vox og þannig er söngur orðinn stór þáttur í lífi þeirra. Kórinn fer reglulega í tónleikaferðir innanlands og utan, m. a. til Ítalíu, Þýskalands og Danmerkur.
Kórfélagar hafa fengið tækifæri til að taka þátt í leikhúsuppfærslum í samstarfi við Borgarleikhúsið:
Bernharða Alba – 2013 , Gullna Hliðið – 2014, Medea – 2018, 9 Líf – 2020
Kórinn er hluti af samsöngsdeild Söngskólans Domus vox.
Kórinn æfir á mánudögum á tímabílinu 19-21:30
Aldurstakmark kórfélaga er: 16 – 30 ára og er kórnum skipt niður í tvo hópa eftir aldri og aðsókn.
Kórfélögum býðst tónfræðikennsla á miðvikudögum.
.
Ég byrjaði í Domus vox þegar ég var aðeins 4 ára gömul og eru því komin heil 15 ár síðan. Sjálf hef ég lært ótrúlega mikið frá því ég byrjaði, bæði hvað varðar framkomu og söngtækni. Ég hef lært að koma fram bæði í kór en einnig sem einsöngvari og er það afar dýrmætt. Í einsöngsnáminu fær maður mörg tækifæri, sem er mjög mikilvægt til að öðlast reynslu í þessum bransa. Nú er ég búin með framhaldsstig frá Domus vox og stunda nám í Jazz-söng við tónlistarskólann FÍH. Einnig hef ég kynnst mörgum af mínum nánustu vinkonum í kórnum sem mér þykir svo vænt um.