Sól og söngur

Samvera í sól og söng hefur gefið söngnemum okkar á öllum stigum ótrúlegar minningar. Æfingar hvern dag, tónleikar og messusöngur í einstöku umhverfi eflir í senn getu einstaklinga í söng og næmni í myndun samhljóms. Foreldrar og kennarar kynnast betur, athygli þeirra og aðdáun gesta á fallegum tónleikum gefa stúlkunum sjálfstraust. Þessar ferðir auka þannig virðingu allra á tilgangi og árangri sem samspil gleði og aga hefur í listastarfsemi.
Margrét J. Pálmadóttir

skólastjóri

Ég mun aldrei gleyma því þegar að við sigldum framhjá cinque terre, allur kórinn, mömmur og Magga. Ég var í sumarkjól í fyrsta skipti á ævinni og með stráhatt. Með mjúkan blæ framan í mér hélt ég hattinum svo hann myndi ekki fjúka. Við sungum meira og minna allan tímann sem við sigldum framhjá þessum fallegu bæjum. Fólk þyrptist niður á höfn til þess að heyra okkur syngja, njóta og gleðjast með okkur. Það var svo gott að gefa af sér og gleðjast í sólinni!
Svanlaug Jóhannsdóttir

Sól og söngur, 1994

Eitt af einkennismerkjum Domus vox eru söngbúðir til Marina di Massa í Toskana á Ítalíu til eflingar á starfinu okkar og samhljómi. Þar fáum við ítalska söng- og matarmenningu í æð með ljúfu strandlífi í bland. Margrét hefur einnig farið í nokkur skipti með hóp stúlkna og kvenna til Rómar að syngja í Péturskirkjunni í Róm.  
Marina di Massa er lítill strandbær sem stendur við rætur Marmarafjallanna í Toskana héraðinu á Ítalíu. Þangað sækja ferðamenn til þess að slaka á, sleikja sólina og njóta hinnar rómuðu ítölsku gestrisni. Bærinn er hluti af borginni Massa sem gaman er að heimsækja, en þar er ýmislegt markvert að sjá og verslanir sem gaman er að heimsækja.  Hótel Lido er þriggja stjörnu fjölskyldurekið hótel þar sem allir leggjast á eitt, hótelstjórinn og konan hans, synir þeirra og tengdadætur, til að gera dvölina sem ánægjulegasta fyrir gesti sína. Herbergin eru látlaus en með baði, síma, sjónvarpi og litlum ísskáp.  Markaður – farandmarkaður sem fer á milli bæja meðfram strandlengjunni heimsækir Massa tvisvar sinnum í viku, annars vegar á þriðjudagsmorgnum í Massa og hins vegar á föstudagsmorgnum í strandbænum okkar, Marina di Massa. Á markaðnum er hægt að fá allt milli himins og jarðar (blóm, mat, fatnað, búsáhöld, leikföng, skó, töskur o.s.frv.) á mjög góðu verði.  Písa og Lucca – hálfsdagsskoðunarferð. Heimkynni tveggja frægra torga. Kraftaverkatorgið með skakka turninum. Að ganga um eitt fegursta torg Ítalíu og líta skakka turninn augum er ógleymanleg sjón.  Piazza dell’Anfiteatro, Hringleikhústorgið í Lucca býr yfir einstakri stemmningu kaffihúsa og verslana. Kirkjur og æfingabúðir.
Yndislegar söngstundir með Möggu á morgnana á Hotel Lido og einkatímar hjá Sigríði Ellu voru ógleymanlegir. Á sama tíma var ég ólétt af dóttur minni og óglatt nær allan tímann og fannst afskaplega leiðinlegt að geta ekki notið ítalskra vína í góðra vina hópi (2005).
Guðrún Björk Bjarnadóttir

Sól og söngur, 2005

Ítalíuferðirnar sem ég fór í með kórum Domus Vox eru skærustu minningar uppvaxtaráranna. Það er svo dýrmætt að hafa fengið að kynnast menningu og náttúru þessa magnaða lands í gegnum Möggu og sönginn. Í þessum ferðum mynduðum við kórsysturnar órjúfanleg vináttubönd og lentum í ótal ævintýrum sem aldrei gleymast.
Steinunn Jónsdóttir

Sól og söngur, 2001 - 2005 - 2007