Sól og söngur
Samvera í sól og söng hefur gefið söngnemum okkar á öllum stigum ótrúlegar minningar. Æfingar hvern dag, tónleikar og messusöngur í einstöku umhverfi eflir í senn getu einstaklinga í söng og næmni í myndun samhljóms. Foreldrar og kennarar kynnast betur, athygli þeirra og aðdáun gesta á fallegum tónleikum gefa stúlkunum sjálfstraust. Þessar ferðir auka þannig virðingu allra á tilgangi og árangri sem samspil gleði og aga hefur í listastarfsemi.
Ég mun aldrei gleyma því þegar að við sigldum framhjá cinque terre, allur kórinn, mömmur og Magga. Ég var í sumarkjól í fyrsta skipti á ævinni og með stráhatt. Með mjúkan blæ framan í mér hélt ég hattinum svo hann myndi ekki fjúka. Við sungum meira og minna allan tímann sem við sigldum framhjá þessum fallegu bæjum. Fólk þyrptist niður á höfn til þess að heyra okkur syngja, njóta og gleðjast með okkur. Það var svo gott að gefa af sér og gleðjast í sólinni!
Eitt af einkennismerkjum Domus vox eru söngbúðir til Marina di Massa í Toskana á Ítalíu til eflingar á starfinu okkar og samhljómi. Þar fáum við ítalska söng- og matarmenningu í æð með ljúfu strandlífi í bland. Margrét hefur einnig farið í nokkur skipti með hóp stúlkna og kvenna til Rómar að syngja í Péturskirkjunni í Róm.
Yndislegar söngstundir með Möggu á morgnana á Hotel Lido og einkatímar hjá Sigríði Ellu voru ógleymanlegir. Á sama tíma var ég ólétt af dóttur minni og óglatt nær allan tímann og fannst afskaplega leiðinlegt að geta ekki notið ítalskra vína í góðra vina hópi (2005).
Ítalíuferðirnar sem ég fór í með kórum Domus Vox eru skærustu minningar uppvaxtaráranna. Það er svo dýrmætt að hafa fengið að kynnast menningu og náttúru þessa magnaða lands í gegnum Möggu og sönginn. Í þessum ferðum mynduðum við kórsysturnar órjúfanleg vináttubönd og lentum í ótal ævintýrum sem aldrei gleymast.