KONUR  Í  100  ÁR

Fjórir kvennakórar standa fyrir tónleikum klukkan 17.00 á Sumardaginn fyrsta í Norðurljósasal Hörpu. Kórarnir eru Aurora, Cantabile, Hrynjandi og Vox feminae.  Kórsöngvarar eru samtals um það bil 140 á ýmsum aldri. Kórarnir æfa allir í sönghúsinu sínu Domus Vox við Laugaveg.  Stjórnendur kóranna eru Margrét J. Pálmadóttir og Maríus Hermann Sverrisson.  Kvennakórinn Hrynjandi hóf göngu sína fyrir fjórum árum og er Maríus stjórnandi hans.  Kórar Margrétar eiga sér allir þrír um tuttugu ára sögu.

Tónleikarnir eru með þessu samstarfi tileinkaðir 100 ára afmæli kostningarréttar kvenna á Íslandi. Efnisskráin er vafningur þekktra ljóða og tónverka sem fylgt hafa þjóðinni í áratugi og varðveist hafa frá kynslóð til kynslóðar.  Karlakórar hafa í heila öld nýtt þennan fjársjóð til söngs, en nú hafa konur um land allt smíðað og fínpússað hljóðfærið kvennakór.  Kvennakórar búa yfir öðrum litum í samhljómi en karlakórar er gefa okkar dásamlegu kórverkum nýjan og hlýjan þokka. Með kórunum og stjórnendunum verða einnig listamennirnir Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari.