IMG_0051Þú getur orðið Verndarengill Domus vox. Hafir þú áhuga á að styrkja starf hússins biðjum við þig vinsamlegast að hafa samband á netfangið domusvox@domusvox.is.

Draumsýnin um sönghús fyrir konur, er þrátt fyrir að vera stórfengleg, hvorki áreynslulaus né auðveld. Það sem fólk kallar kraftaverk í daglegu tali er oftast í huga þeirra sem koma að þeim tákn um vinnusemi, elju og nánast endalaust úthald. Það eitt dugar þó ekki til þess að vinna kraftaverk, skýr sameiginleg markmið, bjartsýni og baráttuvilji þurfa að vera með í för. Því er þó ekki að neita að fjármögnun starfsins og sífelldar áhyggjur af öflun fjár eru slítandi og hamla skapandi starfi.

Eins og þekkt er hafa íslenkir kórar æft í samfélagslegu húsnæði í gegnum tíðina, í félagsheimilum, kirkjum og skólum. Konurnar sem stofnuðu Kvennakór Reykjavíkur og síðar Vox feminae fundu fljótlega að í slíkum húsum voru þær alltaf gestir og þurftu því nauðsynlega eigið húsnæði. Hús sem héldi utan um allt í senn, hljóminn, nóturnar, hljóðfærin, búningana, í stuttu máli, ekki síst, söngkonurnar sjálfar í lífi og söng.

Það fylgir því einstök tilfinning að ganga inn í hringiðuna á Laugavegi- num, heimili kórsins. Skalar og lög hljóma úr hverju herbergi, endalausar raðir af stúlkum og konum á þönum eftir ganginum og nótur, hljóðfæri og bækur fylla þar öll rými. Kórkonur geta ekki annað en fyllst stolti yfir því að vera frumkvöðlar þessa stórkostlega starfs sem þar fer fram, starfs sem er fullt sköpunar, listfengi og lífsgleði, sannkallaður staður sísköpunar eins og kórstjórinn nefnir svo réttilega.

(úr Da Capo, útg. 2010)