Hildigunnur Einarsdóttir

KÓRSTJÓRI

Hildigunnur Einarsdóttir hóf snemma tónlistarnám og söng í Barnakór Grensáskirkju undir stjórn Margrétar Pálmadóttur. Á menntaskólaárunum söng hún í Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Eftir stúdentspróf og frönskunám í París hóf Hildigunnur nám í Söngskólanum í Reykjavík. Þar lauk hún 8. stigsprófi og var kennari hennar Signý Sæmundsdóttir. Veturinn 2008-09 sótti hún einkatíma hjá Janet Williams og Kathryn Wright í Berlín. Hún lauk svo burtfararprófi frá söngskólanum í Reykjavík 2010 undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Hildigunnur hélt til Hollands vorið 2011 og sótti einkatíma til Jóns Þorsteinssonar.

Þá hefur Hildigunnur jafnframt sótt fjölda masterklassa m.a. hjá David Jones og Elisabet Meyer-Topsöe. Hildigunnur er mjög virk í kórastarfi og er meðlimur í Schola Cantorum og Barbörukórnum auk þess sem hún hefur komið fram með kammerkórnum Carminu og kór Íslensku Óperunnar og hefur starfað við útfararsöng síðan árið 2005. Hildigunnur stjórnar, ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur, Kvennakórnum Kötlu sem hefur getið sér gott orð síðastliðin misseri. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari með kórum og hljóðfæraleikurum og stundar auk þess nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands, en þar sækir hún söngtíma til Hlínar Pétursdóttur Behrens og Selmu Guðmundsdóttur.

Please follow and like us: